Nýverið var ég greind með alvarlegan járnskort. Mig hafði grunað það lengi enda var mér farið að blæða meira en góðu hófi gegndi í hverjum mánuði og hafði gert í að verða tvö ár. (Afsakið hreinskilnina). Þar að auki er blóðleysi (eða léleg upptaka járns) í ættinni. Ég reyndi hvað ég gat að borða járnríkt sem og að gleypa allskonar járn sem færi betur í magann en það hefðbundna en lítið gekk að hífa birgðirnar upp í eðlilegt horf. Inn á milli gleymdi ég þessu og vonaði að þetta bara gufaði upp eða leystist af sjálfu sér. Stundum fór ég til læknis og vildi járnsprautu, sem ég svo fékk á endanum (þeir eru sumir tregir til vegna ofnæmisviðbragða við sumu járni) í gegnum meltingarlækni (monofer 100g) og nýtt líf hófst. Þar að auki hef ég gert ráðstafanir til að stöðva þessar ógurlegu blæðingar.
Eftir sprautuna hætti ég að vera með verki í hryggnum, sem höfðu verið að plaga mig, og ég fór að geta hugsað mér að gera allskonar skemmtilegt aftur. Ég hafði verið skugginn af sjálfri mér í meira en ár, grá á litin, örþreytt (lagði mig á hverjum degi) og gerði því bara það sem ég varð, valdi vel, og sleppti öllu öðru. Ég fann líka oft fyrir kvíða, sem ég hafði ekki fundið fyrir áður. Þetta var ekki gaman en lærdómsríkt.
Ég fékk svo aðstoð með eitt og annað í kjölfarið, frá hinum og þessum sérfræðingum, og fór að taka inn meira af ýmsum vítamínum til að hressa mig við eins hratt og hugsast gat.
Það er gríðarlega mikilvægt, ef manni líður ekki vel, að reyna sjálfur að finna út úr því, hvað er að angra mann. Reyna fyrst að fara yfir málin, með sjálfum sér, skoða lífsmynstrið og draga eigin ályktanir, nota innsæið. Og spyrja gott fólk í kringum sig sem og fara í blóðprufu. Við þurfum að vera og erum sérfræðingar í okkur sjálfum. Margir vilja fá lausn sinna mála í gær (skiljanlega), helst bara eina pillu og kannski átta sig ekki á því að maður þarf stundum, þegar vanlíðan, þreyta eða veikindi banka upp á, að skoða hvað má fara betur hjá manni í daglegu lífi.
Bara það að þjást af járnskorti er alveg ömurlegt. Maður er alltaf þreyttur, slappur, ýmislegur og ómögulegur. Úthaldið, andlegt og líkamlegt, er ekkert. Ég til dæmis gat mjög lítið æft á þessum tíma, þar sem endurheimturnar mínar voru litlar sem engar. Ég var svo verkjuð í skrokknum eftir æfingar (dagana á eftir) að ég æfði bara einstaka sinnum. Þar að auki er allt viðnám líkamans verulega laskað svo að kvíði, þunglyndi, pestir og allt þar fram eftir götunum getur miklu fremur leikið mann grátt, heldur en ef járnbirgðir eru eðlilegar.
Börn sem þjást af járnskorti eru oft á tíðum eirðarlaus og með mjög skerta athygli. Það eru ákveðin viðmiðunarmörk, sem maður fær uppgefin um leið og maður fær niðurstöður úr blóðprufu. Ef maður er neðarlega í viðmiðunarmörkum eftir blóðprufu, hvort sem það er í járni, D-vítamíni eða öðru getur verið gott að taka kúr og hífa aðeins upp gildin. Best er að fá alltaf niðurstöður úr blóðprufum og eiga. Búa til heilsumöppu og þá er hægt að bera saman og vera meðvitaður um eigin heilsu.
Næringarskortur getur haft mjög alvarleg áhrif á líðan til hins verra. Fólk er þó án efa mis viðkvæmt og vinnur lika misvel úr næringunni sem það innbyrðir. Þess vegna verður maður að veita eigin líðan eftirtekt og breyta eftir því sem manni finnst að sé best fyrir mann. Eins og með mat. Ef maður borðar eitthvað og líður svo illa af því, þá er bara sniðugt að borða það ekki aftur. Eða að minnsta kosti taka pásu í 1-3 mánuði og prófa svo aftur.
Sumir prófa sig áfram með hreint mataræði svokallað í 2-3 vikur, taka út ýmsa þekkta óþolsvalda og innleiða þá svo aftur í rólegheitum einn af öðrum eftir það og þá gefur líkaminn okkur merki, hvort við þolum viðkomandi fæðutegund eður ei.
D-vítamínskortur er annað dæmi um skort þar sem þunglyndi og kvíði getur fremur herjað á mann þegar maður er orðinn lár. D-vítamín er líka mikilvægt fyrir heilbrigð bein og tennur og hver vill nú ekki hafa það tvennt í lagi! Það sparar formúgur að styrkja það tvennt. Eftir að hafa farið í blóðprufur sjálf og fylgst þannig með mínu D-vítamíni, tel ég að viðmiðunarskammtar séu of lágir.
Það er leitt að hugsa til þess að einhverjir eru örugglega að innbyrða lyf, þegar þeir kannski þjást eingöngu af næringarskorti. Lyf eru oft nauðsynleg en ekki alltaf og þeim geta fylgt aukaverkanir. Því er gott að taka þau bara ef maður verður. Athugið líka að lesa vel um aukaverkanir þess lyfs, sem þið þurfið að taka. Til dæmis geta þvagræsilyf haft þá aukaverkun að skola út sumum steinefnum (t.d. kalíum og magnesium) og magalyf sum geta minnkað upptöku á B12 og fólínsýru. Þá þarf að taka inn bætiefni til að vinna á móti slíkum aukaverkunum svo heilsan bíði ekki skaða af.
Streita er annar faraldur sem er að drepa okkur hægt og bítandi. Hægt er að skrifa langan pistil um hana. Um það mál vil ég bara segja þetta; Það er tími og staður fyrir allt. Það þarf ekki að gera allt strax. Góðir hlutir gerast hægt. Tækifærin gufa ekki bara upp og koma aldrei aftur. En heilsan okkar getur gert það og börnin okkar stækka. Þetta tvennt þarf að rækta fyrst af öllu og allt hitt fylgir á eftir í jafnvægi og réttum takti. Ég held að þegar börnunum okkar líður vel, þá líður okkur vel. Er það ekki? Við þurfum að hlúa að þeim fyrst og síðast. Þar liggur okkar eigin hamingja.
Ef við drepum okkur á vinnu (ýkt dæmi) þá er enginn minnisvarði settur upp um mann í vinnunni. Enginn. Eftir nokkrar mánuði muna aðeins nokkrir eftir manni. Það kemur alltaf maður í manns stað. Enginn er ómissandi. Það er ákaflega gæfuríkt að vera með á hreinu, hvað það er sem skiptir mestu máli, og fyrir hvern maður sjálfur skiptir mestu máli og tapa ekki sjónar á því. Og það þarf svo sannarlega ekki að vera stanslaust að gera öllum allt til geðs. Manni þarf að þykja nægilega vænt um sig til að standa með sér, þora að hlusta á innsæið sitt, segja nei, þegar það á við og já auðvitað líka, þegar það á við.
Sjálfri finnst mér að allir sem eiga fjölskyldur (og hinir líka ef þeir vilja) ættu að fá val um að vinna 6 klukkustunda vinnudag. Vinnuveitendur, tel ég, myndu ekki tapa á því. Það vinnur enginn (eða mjög fáir) sleitulaust í 8 tíma. Heimilið er risastórt fyrirtæki sem rekur sig ekki sjálft. Þegar vinnudagurinn er svona langur mun alltaf eitthvað snatt falla á vinnudaginn, það er óhjákvæmilegt. En ef vinnudagurinn væri styttur, myndu flestar erindagjörðir falla utan vinnudagsins og allir foreldrar svo glaðir að geta verið meira til staðar fyrir börnin sín og betur náð utan um öll verk heimilisins sem eru endalaus! (Ég tala af reynslu, svakalega endalaus).
Ég sendi ykkur mínar hlýjustu kveðjur og hvet hvert og eitt ykkar til að hlusta á líkamamann og hjartað og þora að vera þið sjálf. Þannig drögum við til okkar það sem hentar okkur best. Minnið unglingana ykkar á það líka. Líkur sækir líkan heim, þess vegna er heillavænlegast að vera maður sjálfur. Og eins og afi Jóhannes sagði oft: ,,Maður er ekki merkilegur ef öllum líkar vel við mann.” Gott að muna það líka 🙂
No Replies to "Við erum öll sérfræðingar"