Hinn gullni meðalvegur

Ég hef verið garfandi í heilsutengdum efnum sl. 18 ár. Hér að neðan er samantekt á því sem mér finnst ég hafa komist að eftir allt þetta heilsubrölt, öðrum hugsanlega til aðstoðar og einföldunar.

 

 1. Ég held að sama mataræði henti ekki öllum. Og stundum hentar manni svona mataræði núna, en ekki seinna (ef þið skiljið mig – og þá breytir maður til). Aðalmálið er að hafa matinn hreinan og forðast eftirlíkingar af mat, drekkhlaðnar aukaefnum og orðum sem enginn skilur. Heillavænlegast fyrir líkama og sál er að velja alltaf gæði og hreinleika. Það mun á endanum ekki kosta meira (ég lofa) vegna þess að næringarríkur matur mettar mann betur og fyrr en næringarsnauður og að öllum líkindum fækkar læknisheimsóknum. Afar mikilvægt fyrir jörðina og budduna er einnig að fara ávallt vel með allan mat og gæta þess að ekkert fari til spillis. Munið að gæta hreinlætis svo maturinn endist betur. Það er snjallt að frysta það sem liggur undir skemmdum, þroskaðir ávextir, grænmeti og annað sem lítur út fyrir að þið náið ekki að borða í tæka tíð. Það er þægilegt að eiga niðurskorið grænmeti í frysti til að henda í súpur og pottrétti og niðurskorna ávexti í þeytinga.

 

2. Það er mikill hávaði á alnetinu varðandi mismunandi mataræði. Nokkur dæmi;  Vegetarian (grænmetisfæði), vegan (þá er líka afurðum dýra sleppt, eins og eggjum og mjólkurafurðum), paleo (áhersla á próteinríkt fæði og lítið af sterkju; kjöt, fiskur, hnetur, fræ, avókadó, grænmeti og ávextir) og svo lágkolvetna mataræði þar sem ávöxtum er líka sleppt og jafnvel sterkjuríku grænmeti, svo eitthvað sé nefnt. Ég trúi að aðalmálið sé að hver og einn fylgi því mataræði sem honum hentar en leggi ávallt áherslu á hreinleika, gæði og hófsemi.

 

3. Allar öfgar, stíf boð og bönn geta endað með ósköpum eins og reglulegu ofáti og þráhyggju fyrir því sem ekki má. Til að eiga friðsamlegt líf, skemmtilegt og gleðjandi er oftast best að reyna í öllu að einfalda líf sitt og vera hæfilega kærulaus í mataræði sem og mörgu öðru, taka undantekningum með opnum örmum og geta brugðist við án þess að fara í ‘panikk’. Þetta er að sjálfsögðu bara mín skoðun, lituð af aldri og vonandi visku. Það er ekki gott ef mataræði stjórnar lífi okkar algjörlega. Ef við erum farin að forðast að hitta fólk eða mæta í allskyns boð og samkundur, þá er gott að skoða aðeins málið. Þó við borðum oftast ekki þetta eða hitt, þá gerist ekkert hræðilegt, þó maður smakki það endrum og sinnum. Líkaminn þolir vel óvæntar uppákomur. Líkaminn er ótrúlega sterkur og sniðugur. Ég skil og veit að sumir þola illa hálfkák og verða að gera alla hluti algjörlega eða ekki (og sumir með ofnæmi). En þeir sem eru það ekki, þurfa þess ekki og langar það ekki, ættu frekar að velja sér einhverja línu í mataræði sem þeim líkar, finnst góð (góður maturinn), líður vel af, eru ánægðir með en vera óhræddir við óvæntu uppákomurnar sem ferðalögin, veislurnar og allt hitt óhjákvæmlega hefur í för með sér og getur glatt ef maður er ekki of stressaður.

 

4. Miklar líkur eru á því að maður komist í kjörþyngd og sé þar, ef borðaður er næringarríkur matur, nóg af góðu próteini og gæðafitu hvern dag, hollt borðað á undan sætindum, hófsemi í matarskömmtun (mjög mikilvægt, snjallt að nota minni diska og skálar en stærri) og regluleg hreyfing. Og þá er ég bara að tala um hæfilega hreyfingu, engar öfgar. En kannski er stundum vandamálið að við erum að reyna að pína líkamann okkar til að vera í þyngd sem honum er ekki eðlilegt að vera í. Þá geta vandamál komið upp. Við erum svo misjöfn að upplagi, sumir grannvaxnari en aðrir og enginn eins í laginu. Mikið er um að fólk reyni allskyns öfgar til að halda einhverri ákveðinni þyngd, sem er eins og beita líkamann ofbeldi og getur endað með öfgum í hina áttina.

 

5. Það er bæði óhollt að borða yfir sig og svelta sig. Best er að borða þannig að manni líði vel og maður geti vel farið í göngutúr eftir matinn. Ofát er mikið álag á líkamann. Og best væri ef við gætum öll séð fegurðina í okkur sjálfum og verið okkur góð.

 

Í gegnum árin hefur þetta verið rauður þráður í mínu mataræði og gagnast mér vel:

 

*Kaupa nánast eingöngu hreinan gæðamat.

 

*Fara vel með mat, ekki henda mat og frysta mat sem liggur undir skemmdum.

 

*Kaupa minna inn í einu en meira (þá minnkar hættan á því að maður hendi mat).

 

*Borða nóg af gæðafitu og gæðapróteini hvern dag.

 

*Nota sætu eins og döðlur, lífrænt hunang, banana, stevíu, hrásykur og kókospálmasykur.

 

*Taka mikið inn af góðgerlum (mismunandi tegundir) og líka hægt að borða örlítið af súrkáli 1-2 sinnum á dag fyrir máltíðir.

 

*Ég er farin að taka meira inn af bætiefnum eftir því sem ég eldist og finn að það gerir mér gott (D-vítamín mjög mikilvægt fyrir okkur öll og sjálf tek ég magnesium inn öll kvöld).

 

*Drekka volgt vatn um leið og ég vakna; 1-3 glös (Hreinsar húð og líkama).

 

*Flesta morgna kreisti ég 1/2 súraldin eða sítrónu í glas og drekk með slettu af lífrænni ólífuolíu og skola svo tennur vel með vatni. Þetta er gott fyrir hægðirnar og gerir líkamann basískan (og því gott við nábít og brjóstsviða). Oft á ég lífrænan rauðrófusafa eða gulrótasafa og set saman við líka og úr verður ljúffengur drykkur. Stundum geri ég grænan djús; grænkál eða gúrka, engifer, epli, sítróna eða súraldin.

 

*Athugið að prótein og fita mettar og heldur blóðsykri stöðugum (þá sækjum við minna/lítið í sætindi). Þess vegna er mikilvægt að fá í flestum máltíðum gæðafitu og prótein. Mér finnst best að borða eingöngu prótein og fitu í morgunmat. Það slær algjörlega á sætulöngun.

 

Dæmi um góð prótein og fitu; Egg (lífræn), kjöt, fiskur, avókadó, hnetur, möndlur, fræ, lífrænar mjólkurafurðir, baunir og linsur, kaldpressaðar olíur (dökkum umbúðum) og hreint smjör sem dæmi.

 

 

Glútenlaus döðlukaka

.. alveg hræðilega góð og sívinsæl og mjög einföld. Er búin að búa hana til í grilljón og eitt ár og fæ aldrei leið á henni!

 

Fyllingin:

250 g döðlur

100 ml lífrænn eplasafi eða annar ávaxtasafi (má sleppa og nota bara vatn)

100 ml vatn

 

Hita döðlur, safa og vatn saman að suðu í fremur litlum potti, slökkva þá undir og láta standa á meðan botninn er útbúinn.

 

Botninn:

110 g möndlur

110 g kókosmjöl

50 g kaldpressuð kókosolía eða 70g kalt smjör í bitum (má bæta við ef ykkur finnst þurfa þykja)

Ögn af vatni (til að ná þessu saman ef þarf)

Ber og/eða ávextir til að skreyta og bragðbæta kökuna með í lokin (má nota frosin)

 

 1.   Hitið ofninn ykkar í 150°C.
 2. Setjið möndlur og kókosmjöl í blandara eða matvinnsluvél og malið smátt.
 3. Setjið möndlur og kókosmjöl í skál og blandið saman við smjör/kókosolíuna og vatnið (bara ef þarf) með höndunum.
 4. Pressið ofan í eldfast kökuform (24 cm um það bil), pikkið í botninn með gaffli hér og þar og bakið í um 18 mínútur.
 5. Á meðan botninn bakast maukið döðlurnar með töfrasprota ofan í pottinum eða í blandara/matvinnsluvél.
 6. Þegar botninn er svo bakaður setjið þið döðlumassann ofan á hann og skreytið svo með ferskum eða frosnum ávöxtum!

 

*Ég nota mjög oft lífræn frosin ber ofan á (fékk í Nettó um daginn).

 

 


No Replies to "Hinn gullni meðalvegur"

  Leave a reply

  Your email address will not be published.